Baldvin Þór Magnússon náði um helgina besta tíma sem Íslendingur hefur náð í 3 þúsund metra hlaupi innanhúss.
Baldvin hljóp vegalengdina á 7:53,92 mínútum en keppt var á 300 metra braut í Michiganríki í Bandaríkjunum. Baldvin er við nám í Bandaríkjunum og keppir fyrir Eastern Michigan-háskólann í NCAA.
Algengara er að keppt sé á 200 metra löngum brautum innanhúss og af þeim sökum verður tíminn ekki skráður sem Íslandsmet í greininni samkvæmt því sem fram kemur hjá Frjálsíþróttasambandinu.
Hlynur Andrésson á Íslandsmetið en tími hans er 7:59,11 mínútur.