Alfons Sampsted og liðsfélagar hans í norska meistaraliðinu Bodø/Glimt eru komnir í sóttkví vegna kórónuveirunnar.
Þetta staðfesti félagið á samfélagsmiðlum sínum í gærkvöldi en hluti af leikmannahópi liðsins var í samskiptum við smitaðan einstakling á dögunum.
Bæði leikmenn, þjálfarar og starfslið í kringum félagið er komið í sóttkví, ásamt því að gangast undir kórónuveirupróf, en niðurstöðu úr þeim er að vænta síðar í dag.
Bodø/Glimt varð Noregsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins á síðustu leiktíð og var Alfons algjör lykilmaður í liðinu.
Norska úrvalsdeildin hefst á nýjan leik 5. apríl næstkomandi en Bodø/Glimt tekur þá á móti Brann í fyrstu umferð deildarinnar.