Áhorfendur bannaðir á Opna ástralska

Novak Djokovic í viðureign sinni gegn Frances Tiafoe á Opna …
Novak Djokovic í viðureign sinni gegn Frances Tiafoe á Opna ástralska meistaramótinu á miðvikudaginn. AFP

Stjórnvöld í Viktoríu-ríki í Ástralíu hafa ákveðið að setja á útgöngubann. Bannið tekur gildi á miðnætti og verða áhorfendur þar með ekki leyfðir á Opna ástralska meistaramótinu í tennis sem fer fram þessa dagana í Melbourne.

Áhorfendabannið mun gilda í að minnsta kosti fimm daga frá og með morgundeginum. Ástæðan fyrir útgöngubanninu er fjöldi nýrra kórónuveirusmita, en 13 ný smit af nýju bresku afbrigði hafa greinst í tengslum við fjöldasmit á hóteli í Melbourne.

Skólum og háskólum verður lokað og flestum íbúum á svæðinu hefur verið fyrirskipað að halda sig heima, nema þörf krefji á að sækja sér læknisþjónustu, kaupa nauðsynlega matvöru, hreyfa sig eða ef fólk sinnir framlínustarfi.

Áhorfendur höfðu verið leyfðir á Opna ástralska fram til þessa og á það sömuleiðis við um keppnisdaginn í dag. Áhorfendur eru til að mynda að fylgjast með viðureign Novak Djokovic og Taylor Fritz sem nú stendur yfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert