Gamla ljósmyndin: Fyrirliði í tveimur greinum

Morgunblaðið/Rúnar Þór Björnsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Á árum áður var ekki óalgengt að hæfileikaríkt íþróttafólk hérlendis væri í einni íþróttagrein á sumrin og annarri á veturna á fullorðinsaldri. Minni tíma var eytt í hverja íþrótt fyrir sig og ekki þótti óeðlilegt að skipta á milli greina eftir árstíðum, sérstaklega ef fólk var ekki á barmi atvinnumennsku erlendis. 

Nú eru svo gott sem engin dæmi um slíkt í hópíþróttunum en mörg dæmi eru um að fólki hafi tekist að verða Íslandsmeistari í tveimur hópíþróttagreinum í gegnum tíðina. Einn þeirra síðustu, og líklega sá síðasti, sem náðu því var Akureyringurinn Erlingur Kristjánsson. Hann gerði gott betur en að verða Íslandsmeistari bæði í knattspyrnu og handknattleik því hann var fyrirliði í báðum tilfellum. 

Erlingur var fyrirliði KA þegar liðið varð Íslandsmeistari í knattspyrnu árið 1989, býsna óvænt. Erlingur veitti Íslandsbikarnum viðtöku í Keflavík þar sem liðið vann Keflavík í 18. og síðustu umferð mótsins. Átta árum síðar var hann fyrirliði KA sem varð Íslandsmeistari í handknattleik árið 1997. Veitti hann Íslandsbikarnum viðtöku í KA-heimilinu eftir 3:1 sigur í úrslitarimmu gegn Aftureldingu. 

Erlingur þótti sterkur í loftinu á knattspyrnuvellinum og er í loftinu á meðfylgjandi mynd frá Akureyrarvelli sumarið 1988. Myndin er tekin í slag Akureyrarliðinna í efstu deild Íslandsmótsins í júní 1988 en leiknum lauk með jafntefli 1:1. Myndina tók Rúnar Þór Björnsson, ljósmyndari á Akureyri.

Á myndinni frá vinstri eru: Jónas Róbertsson (10) Þórsari, Anthony Karl Gregory KA-maður, Einar Arason Þórsari, Erlingur og Guðmundur Valur Sigurðsson Þórsari. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert