Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir úr Glímufélagi Dalamanna og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson úr UÍA urðu tvöfaldir sigurvegarar í Bikarglímu Íslands sem fram fór í Reykjanesbæ um helgina.
Þau unnu bæði sinn þyngdarflokk og sigruðu í opnum flokkum kvenna og karla. Guðmundur Stefán Gunnarsson og Svana Hrönn Jóhannsdóttir sendu mbl.is eftirfarandi pistil um bikarglímuna:
Mótið fór vel fram og var hið veglegasta þrátt fyrir samkomutakmarkanir vegna Covid. 36 keppendur voru hjá yngri flokkum, 7 keppendur í unglingaflokki og 15 keppendur í fullorðinsflokkum. Keppnin var hörð en skemmtileg og spennandi í öllum flokkum.
Fjölmargar fjörugar viðureignir voru á mótinu og 10 bikarmeistarar voru krýndir í barna- og unglingaflokkum. Einn frá GFD, tveir frá UÍA, tveir frá HSK og fimm frá UMFN og einn frá UMFÞ.
Í unglingaflokkum sigraði Snjólfur Björgvinsson, UÍA, í -80 kg flokki og Hákon Gunnarsson UÍA sigraði svo í fjölmennum +80 kg flokki með miklum yfirburðum og bætti öðrum bikarmeistaratitlinum við. Hann vann einnig sinn aldursflokk í barnamótinu en drengurinn er aðeins 16 ára en rammur að afli.
Í fullorðinsflokkum sigraði Gunnar Örn Guðmundsson, UMFN, í -80 kg flokki karla. Í -70 kg flokki kvenna var mikil spenna sem endaði í hreinni úrslitaglímu sem Jana Lind Ellertsdóttir HSK vann og bætti bikarmeistaratitli í safn HSK.
Í -90 kg flokki karla var mikil og hörð keppni, en hinn reyndi Hjörtur Elí Steindórsson úr UÍA varð hlutskarpastur og bætti bikarmeistaratitli í safnið.
Opnu flokkarnir voru báðir mjög spennandi. Þegar allir höfðu glímt við alla voru þrír karlar jafnir í 2. sæti og fjórar konur jafnar í 3. sæti. Eftir að konurnar fjórar höfðu allar glímt voru tvær enn jafnar, en það voru Kristín Embla Guðjónsdóttir, glímudrottning 2018, og Jana Lind Ellertsdóttir, glímudrottning 2019. Þær glímdu til þrautar í 17 og hálfa mínútu og sigraði Jana að lokum og náði 3. sætinu. Þess má geta að glímumenn fá tvær mínútur til að leggja andstæðing sinn, annars er dæmt jafntefli, nema þegar glímt er til þrautar.
Guðbjört Lóa Þorgrímsdóttir úr GFD og Ásmundur Hálfdán Ásmundsson úr UÍA sigruðu svo tvöfalt, bæði í sínum þyngdarflokki og svo í opnu flokkunum.
Mikil gróska er í glímunni um þessar mundir og greinilegt að gleðin og ánægjan eru ríkjandi á mótum sambandsins. Næsta mót verður haldið í Reykjavík 6. mars. Það er tímamót, þar sem keppendur fá stig fyrir að vera fljótir að leggja andstæðinginn, en dæmt er jafnglími ef hvorugum keppandanum tekst að leggja hinn eftir tvær mínútur og hlýtur þá hvorugur keppandinn stig.