Leggur skíðaklossana á hilluna

Ted Ligety á heimsbikarmóti í janúar.
Ted Ligety á heimsbikarmóti í janúar. AFP

Einn frægasti skíðamaður Bandaríkjamanna á þessari öld hefur ákveðið að láta gott
heita og leggja klossana á hilluna.

Ted Ligety tilkynnti í gær að keppnisferlinum væri lokið en Ligety er 36 ára gamall og hafði hugsað sér að vera með á heimsmeistaramótinu í þessum mánuði.

Bakmeiðsli koma í veg fyrir þátttöku hans og segist kappinn vera of kvalinn til að keppa. Myndatökur af bakinu sýni auk þess að hann sé ekki heill heilsu.

Ted Ligety er á meðal mestu afreksmanna í sögu HM í alpagreinum. Ekki síst vegna þess að á HM í Austurríki árið 2013 nældi hann í þrenn gullverðlaun. Nokkuð sem ekki hafði gerst í 45 ár.

Ég var spenntur fyrir því að keppa einu sinni enn og ljúka ferlinum á mínum forsendum en því miður verður ekki af því. Bakið ætlar að ráða ferðinni og er að segja mér að ferlinum sé lokið.

Alls varð Ligety fimm sinnum heimsmeistari á þremur heimsmeistaramótum, 2011, 2013 og 2015. Þrívegis í stórsvigi, einu sinni í risasvigi og einu sinni í tvíkeppni. 

Hann varð ólympíumeistari í Tórínó 2006 í tvíkeppni og í stórsvigi í Sochi árið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert