Shiffrin 0,02 sekúndum frá sigri

Lara Gut Behrami er tvöfaldur heimsmeistari.
Lara Gut Behrami er tvöfaldur heimsmeistari. AFP

Lara Gut-Behrami frá Sviss varð heimsmeistari í stórsvigi á HM í alpagreinum á Ítalíu í dag og hefur þá unnið tvær greinar á HM. 

Gut-Behrami skaust naumlega fram fyrir Mikaelu Shiffrin frá Bandaríkjunum sem var með forystuna eftir fyrri ferðina og virtist líkleg til að næsa í sitt fyrsta gull í stórsvigi á HM. 

Svo fór ekki og Gut-Behrami sigraði og varð 0,02 sekúndum á undan Shiffrin. Þar sem hafa svissnesku konurnar náð í fjögur gull í fyrstu fimm greinunum í kvennaflokki en einungis keppni í svigi er eftir. 

Lara Gut-Behrami er 29 ára gömul og varð heimsmeistari í annað sinn á Ítalíu því hún sigraði einnig í risasviginu á dögunum. Þegar kom að HM á Ítalíu hafði hún ekki orðið heimsmeistari en þó farið nokkrum sinnum á verðlaunapall á heimsmeistaramótunum. Ferill hennar hefur litast nokkuð af meiðslum og á hún ein bronsverðlaun frá Vetrarólympíuleikum. Var það í bruni á leikunum í Sochi árið 2014. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert