SA vann í kvöld 3:2-sigur á SR í Hertz-deild karla í íshokkí í Skautahöll Reykjavíkur. Sigurmarkið kom á lokasekúndum leiksins.
Einar Grant kom SA yfir á 23. mínútu eftir markalausa fyrstu lotu en tíu mínútum síðar jafnaði Kári Arnarsson. Axel Orongan átti lokaorðið í annarri lotu þegar hann kom SA í 2:1 á 35. mínútu.
Pétur Maack jafnaði í 2:2 á 53. mínútu og stefndi allt í framlengingu þegar Axel Orongan skoraði sigurmarkið, 22 sekúndum fyrir leikslok með sínu öðru marki og þar við sat.
SA er með fullt hús stiga eftir fjóra leiki en SR hefur tapað öllum fjórum leikjum sínum.