Gamla ljósmyndin: Lét oft hækka rána

Ljósmynd/Hafsteinn Óskarsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þórdís Gísladóttir lét snemma að sér kveða sem hástökkvari. Ekki síst þegar hún sigraði í hástökki á bandaríska háskólameistaramótinu í frjálsum íþróttum en þar er gjarnan efnilegasta frjálsíþróttafólk Bandaríkjanna saman komið og margir verðandi verðlaunahafar á Ólympíuleikum og heimsmeistaramótinu. Þórdís varð bandarískur háskólameistari 1982 og 1983 en einnig innanhúss árið 1983. Keppti hún fyrir University of Alabama og var árið 1983 valin í úrvalslið Norðurlanda sem mætti Bandaríkjunum. 

Þórdís átti langan og glæsilegan feril. Keppti til að mynda á tvennum Ólympíuleikum; í Montreal árið 1976 og í Los Angeles árið 1984. Var hún aðeins 16 ára gömul á leikunum í Montreal. Þórdís keppti sex sinnum á heimsmeistaramótum og þrívegis á Evrópumeistaramótum. 

Á myndinni er Þórdís að vippa sér yfir hástökksrána á Opna skoska meistaramótinu innanhúss árið 1988. Myndina tók Hafsteinn Óskarsson. 

Þórdís á enn Íslandsmetin í hástökki, bæði utanhúss og innanhúss. Metið utanhúss var sett í Grimsby 19. ágúst árið 1990 en metið innanhúss var sett í Pontiac í Michigan 12. mars 1983. Í báðum tilfellum stökk hún 1,88 cm. Hefur Þórdís átt Íslandsmetið óslitið síðan 1976 eða í 45 ár. 

Þórdís var tvívegis á meðal tíu efstu í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna, 1982 og 1983.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert