Norðmaðurinn Sebastian Foss-Solevåg varð heimsmeistari karla í svigi á HM í alpagreinum í Cortina d'Ampezzo á Ítalíu í dag. Foss-Solevåg var þriðji eftir fyrri ferðina í morgun.
Hann var hins vegar fljótastur niður brekkuna í seinni ferðinni og hreppti gullið, heildartími hans var 1:46,48. Austurríkismaðurinn Adrian Pertl, sem var efstur eftir fyrri ferðina, tók silfrið og annar Norðmaður var svo í þriðja sæti, Henrik Kristoffersen.
Íslendingurinn Sturla Snær Snorrason var á meðal keppenda og með rásnúmer 59 en honum tókst ekki að ljúka fyrri ferðinni.