SA er áfram með fullt hús stiga í Hertz-deild karla í íshokkí eftir 8:2-stórsigur á heimavelli gegn Fjölni í kvöld.
Akureyringar skoruðu átta fyrstu mörk leiksins. Tvö fyrstu gerðu Alex Sveinsson og Jóhann Már Leifsson í fyrstu lotu. Alex skoraði sitt annað mark í annarri lotu og þeir Uni Sigurðarson og Egill Birgisson skoruðu fjórða og fimmta markið.
Heiðar Kristveigarson bætti við sjötta markinu í þriðju lotu og Alex skoraði sitt þriðja mark og sjöunda mark SA á 46. mínútu. Fimm mínútum síðar skoraði Gunnar Arason áttunda mark SA. Aron Knútsson og Hilmar Benediktsson löguðu stöðuna fyrir Fjölni í lokin.
SA er með sex sigra í sex leikjum en Fjölnir er með tvo sigra og þrjú töp í fimm leikjum.