Kristján Viggó Sigfinnsson, efnilegasti hástökkvari landsins, vann öruggan sigur í hástökki pilta 18-19 ára á Meistaramóti 15-22 ára innanhúss í frjálsíþróttum í Laugardalshöll í dag.
Kristján stökk yfir slétta tvo metra í fyrstu tilraun, en hann felldi í þrígang 2,07 metra. Kristján var nokkuð frá sínu besta því hann hefur hæst stokkið 2,15 metra. Lágmarkið inn á HM ungmenna er 2,16 metrar.
Vigfús Nói Birgisson varð annar með 1,77 metra og Egill Smári Tryggvason þriðji með stökk upp á 1,72 metra.