Margfaldi heimsmeistarinn í skíðagöngu Therese Johaug varði í dag heimsmeistaratitilinn sinn í skiptigöngu á HM í norrænum greinum sem fram fer í Obertsdorf í Þýskalandi.
Í skiptigöngu kvenna er byrjað á að fara 7,5 kílómetra með hefðbundinni aðferð og síðan 7,5 kílómetra með frjálsri aðferð. Sú norska kom í mark á tímanum 38:35,05 og var hálfri mínútu á undan næsta keppenda, Fridu Karlsson frá Svíþjóð. Í þriðja sæti var einnig Svíi, Ebba Andersson. Johaug hefur nú unnið til 11 gullverðlauna á heimsmeistaramótum en hún vann einnig í greininni á HM fyrir tveimur árum.