Hin japanska Naomi Osaka vann sinn fjórða stóra tennistitil á Opna ástralska mótinu fyrir réttri viku, þrátt fyrir að vera aðeins 23 ára. Framtíðin virðist björt en hver er þessi unga afrekskona?
„Það fer ekkert á milli mála að ný kona hefur tekið stjórnina í tennisíþróttinni. Naomi Osaka er með þetta í hendi sér og hefur opnað nýja vídd,“ sagði franski tennisskýrandinn og gamla spaðadrottningin Justine Henin á sjónvarpsstöðinni Eurosport eftir sigur þeirrar japönsku á Opna ástralska mótinu um liðna helgi. Serena Williams hefur deilt og drottnað um langt árabil en það var líklega táknrænt að sú bandaríska var fórnarlamb Osaka í undanúrslitum þar neðra. Landa Williams, Jennifer Brady, var engin fyrirstaða í úrslitunum.
Lífleg umræða hefur farið fram í tennisheiminum í vikunni, þar sem menn velta meðal annars fyrir sér hvort Osaka hafi burði til að verða sú besta frá upphafi, betri en Margaret Court, Serena Williams, Steffi Graf og Martina Navratilova. Sá eini sem getur svarað því er gamli góði tíminn.
Þetta var fjórði alslemmungur Osaka en þar er átt við sigur á fjórum helstu tennismótum heims, Opna ástralska, Opna franska, Wimbledon-mótinu og Opna bandaríska. Hún hefur nú unnið bandaríska mótið og það ástralska hvort um sig í tvígang. Þau mót eiga það sameiginlegt að vera leikin á hörðu undirlagi, sem hentar Osaka mun betur en leirinn á Roland Garros-völlunum í París eða grasið á Wimbledon. Á þeim mótum hefur hún aldrei komist lengra en í þriðju umferð. Osaka hefur verið að sækja í sig veðrið á leir en á enn í talsverðu basli á grænni grund. Árið 2019 laut hún í gras á Wimbledon fyrir Yuliu Putintsevu frá hinu dýrðlega en með öllu ófræga tennislandi Kasakstan. „Ég ólst ekki upp við að spila á grasi en verð að læra að fóta mig betur á því undirlagi, eins leirnum,“ sagði hún við fréttamenn eftir sigurinn í Ástralíu.
Spurð hvort hún vonaðist til að vinna næsta mót á leir eða grasi svaraði Osaka: „Vonandi á leir, vegna þess að það mót er á undan.“
Osaka varð í ársbyrjun 2019 fyrsta asíska konan til að komast á topp heimslistans í greininni en þær Ashleigh Barty frá Ástralíu hafa skipst á að verma það síðan. Barty situr þar nú en Osaka er númer tvö. Sú japanska vill að sjálfsögðu endurheimta toppsætið og tengir það við áform sín um meiri stöðugleika; hún hafi enn ekki náð að leika vel yfir heilt ár. „Ég vil standa mig vel á öllum mótum sem ég tek þátt í. Það er markmiðið – að vera stöðug árið út í gegn en ekki að missa flugið í miðjum klíðum, í júní eða júlí, eins og ég hef gert til þessa,“ trúði hún blaðamönnum fyrir í Melbourne.
Osaka er kraftmikill og sókndjarfur leikmaður og uppgjafir hennar hafa verið mældar á 200 km hraða sem skipar henni á bekk með tíu hröðustu uppgefendum í sögu kvennatennisins. Þá hefur hún unnið markvisst í andlegu hliðinni og með þeim hætti eflt einbeitingu sína og dregið úr mistökum. Eftir fyrsta alslemmunginn á Opna bandaríska 2018 talaði Osaka um að hún væri sjálfri sér verst og að hún flygist gjarnan á við sjálfa sig, eins undarlega og það hljómar. Úr því hefur þó dregið eftir að hún fór að vinna með þjálfaranum Sascha Bajin. „Hann hefur staðið sig vel í að ganga á milli,“ sagði hún við fréttamenn.
Naomi Osaka fæddist, merkilegt nokk, í borginni Osaka í Japan, í hverfi sem heitir því þjála nafni Chuo-ku, 16. október 1997 og er því 23 ára að aldri. Móðir hennar, Tamaki Osaka, er japönsk en faðirinn, Leonard François, frá Haítí. Naomi á eina systur, Mari, sem er árinu eldri og vinnur einnig fyrir sér með tennisleik. Systurnar fengu ættarnafn móður sinnar til að einfalda þeim lífið í Japan en þar um slóðir hefur kerfið tilhneigingu til að þyngjast í vöfum hljómi eftirnafnið ekki japanskt.
Osaka var aðeins þriggja ára þegar hún flutti til Bandaríkjanna með foreldrum sínum. Fyrst bar þau niður á Long Island og þar hófst tennisferill þeirra systra að áeggjan föður þeirra. Sjálfur kunni hann minna en ekkert fyrir sér í íþróttinni en hafði heillast af ungum systrum á Opna franska mótinu 1999. Þær heita Venus og Serena og eru Williams. Árið 2006 flutti fjölskyldan búferlum til Flórída til að systurnar gætu fengið faglegri og betri þjálfun.
Það kann að skjóta skökku við að kona sem ólst upp í Bandaríkjunum frá þriggja ára aldri skuli leika fyrir hönd Japans á mótum. Foreldrar Osaka útskýrðu það í Wall Street Journal árið 2018 að aldrei hefði annað komið til greina. „Hún fæddist í Osaka og ólst upp við japanska og haítíska menningu. Naomi og Mari systir hennar hafa einfaldlega alltaf upplifað sig japanskar og það vó þyngst. Fjármál spiluðu aldrei inn í þessa ákvörðun né heldur höfðu tennissambönd landanna neitt að segja,“ hefur blaðið eftir foreldrunum árið 2018. Í sömu grein kemur þó fram að bandaríska tennissambandið hafi lengi vel sýnt Osaka tómlæti og ekki nálgast hana af neinni alvöru fyrr en hún var orðin sextán ára. Henni var þá boðið til æfinga í Boca Raton í Flórída en hún afþakkaði. Hún hefur ekki sóst eftir bandarísku ríkisfangi. Osaka skilur japönsku vel og tekur við spurningum á móðurmáli sínu á blaðamannafundum. Hún kýs á hinn bóginn yfirleitt að svara á ensku sem er henni tamari.
Fjölmiðlar vita ekki alltaf hvar þeir hafa Osaka sem er í senn feimin að upplagi og blátt áfram, auk þess sem hún þykir hafa býsna beinskeyttan húmor. Hún hefur unnið markvisst í feimninni undanfarin ár, til dæmis með því að æfa sig í að horfa í augun á fólki, og þakkarræður hennar eftir sigra hafa farið batnandi.
Hún hefur látið til sín taka sem aðgerðasinni í seinni tíð, meðal annars með því að vekja athygli á lögregluofbeldi gegn þeldökkum í Bandaríkjunum. Hún var til að mynda viðstödd mótmæli vegna dauða George Floyds í Minnesota í fyrra. Fyrir vikið valdi tímaritið Sports Illustrated hana persónuleika ársins í íþróttaheiminum og annað tímarit, Time, var með hana á lista yfir hundrað áhrifamestu íþróttamenn í heiminum. Í vikunni var hún svo tilnefnd til hinna virtu Laureus-verðlauna.
Osaka er í sambandi með rapparanum Cordae.