Gamla ljósmyndin: Methafi í sjö greinum

Morgunblaðið

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þessi skemmtilega mynd af Borgfirðingnum Jóni Diðrikssyni birtist fyrst í Morgunblaðinu hinn 14. júlí árið 1981. Myndin virkar kannski eins og uppstillt auglýsing fyrir Morgunblaðið en staðreyndin er sú að blaðið hefur einfaldlega oft stutt við íþróttafélög með auglýsingaskiltum á íþróttaviðburðum hérlendis í áratugi. Var myndin tekin helgina áður þegar Landsmót UMFÍ fór fram á Akureyri en þar sigraði Jón með yfirburðum í þremur greinum: 800, 1500 og 5000 metra hlaupum. 

Jón var mikill afreksmaður og átti á einhverjum tímapunkti Íslandsmet í eftirtöldum sjö greinum: 1000, 1500, 2000, 3000 og 5000 metra hlaupum en einnig í míluhlaupi og 3000 metra hindrunarhlaupi. Við þetta má bæta að innanhúss átti hann Íslandsmet í 1500 og 3000 metra hlaupi innanhúss. 

Jón Diðriksson keppti bæði í 800 og 1500 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í Moskvu árið 1980. Hljóp hann 800 metrana á 1:51,10 mínútum en 1500 metrana á 3:44,34 mínútum en í 1500 metrunum hljóp hann í riðli með Jürgen Straub og Steve Ovett sem fengu silfur og brons í greininni. 

Jón hafnaði í 4. sæti í kjörinu á Íþróttamanni ársins hjá Samtökum íþróttafréttamanna árið 1978. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka