Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, sundkona úr SH, synti rétt í þessu undir EM50 lágmarki í 50 m skriðsundi á móti í San Antonio í Texas. Jóhanna synti á tímanum 26,35 en lágmarkið er 26,38.
Jóhanna Elín stundar nú háskólanám í Southern Methodist-háskólanum (SMU) í Texas og æfir sund með skólaliðinu þar. Um síðustu helgi kláraði hún háskólakeppni með liði sínu og um þessa helgi tekur hún þátt í TYR-mótaröðinni, sem fram fer í San Antonio, en sú mótaröð er gríðarlega sterk í Bandaríkjunum.
Jóhanna Elín er önnur sundkonan sem syndir undir EM50-lágmarki um helgina, en Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti í gær undir lágmarki á EM50 og undir boðslágmarki á ÓL 2021.
Evrópumeistaramótið í 50 m laug fer fram í Búdapest í Ungverjalandi dagana 17.–23. maí næstkomandi. Síðasta tækifæri til að tryggja sér lágmark á EM50 verður svo á Íslandsmeistaramótinu sem fram fer 9.–11. apríl í Laugardalslaug.