Þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir kom fyrst í mark á sprettþrautarmóti í Clermont í Flórída í gær.
Það var bandaríska þríþrautarsambandið sem stóð fyrir mótinu en í sprettþraut synda keppendur 750 metra, hjóla 20 kílómetra og hlaupa 5 kílómetra.
Guðlaug Edda kom í mark á tímanum 58:20,6 mínútum og var tæplega einni og hálfri mínútu á undan næstu konu.
Guðlaug Edda hefur dvalið í Flórída að undanförnu þar sem hún æfir en hún mun keppa í Sarasota um næstu helgi.