Vestri hreppti í dag fjórða og síðasta sætið í undanúrslitum bikarkeppni karla í blaki, Kjörísbikarsins, með því að sigra Fylki á útivelli, 3:0.
Hrinurnar enduðu 25:17, 25:19 og 25:23 fyrir Vestfirðinga. Fulltrúar Blaksambands Íslands voru á leiknum í Árbænum og að honum loknum var dregið í undanúrslit karla en búið var að draga í kvennaflokki.
Þar drógust Vestfirðingarnir gegn Hamarsmönnum, sem eru efstir í úrvalsdeild karla, Mizuno-deildinni.
Undanúrslit kvenna fara fram í Digranesi næstkomandi föstudag og eru leikirnir eftirfarandi:
Kl. 17:00: KA - Völsungur
Kl. 20:00: HK - Afturelding
Undanúrslit karla fara fram í Digranesi á laugardag og eru leikirnir eftirfarandi:
Kl. 13:00: Hamar - Vestri
Kl. 20:00: HK - Afturelding
Úrslitaleikirnir fara svo fram á sunnudag þar sem konurnar leika kl. 13:00 og karlarnir kl. 15:30.