Hlynur Andrésson langhlaupari frá Vestmannaeyjum mun hlaupa sitt fyrsta heila maraþon á ævinni um næstu helgi og ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur því þar ætlar hann jafnframt að reyna við lágmarkið til að vinna sér inn keppnisrétt á Ólympíuleikunum í Tókýó í sumar.
Maraþonið verður hlaupið í Bern í Sviss á sunnudaginn en þótt Hlynur hafi aldrei reynt við heilt maraþon hefur hann á undanförnum árum hreinsað upp Íslandsmetin á öllum vegalengdum frá 3.000 metrum og upp í 21 kílómetra.
Í viðtali við RÚV sagðist Hlynur vongóður um að geta hlaupið undir ólympíulágmarkinu. „Það er frekar erfitt fyrir mig að segja til um það þar sem ég hef aldrei hlaupið maraþon áður. En miðað við tímann sem ég hljóp hálft maraþon á í október og formið sem ég er í núna held ég að ég geti hlaupið undir þessu ólympíulágmarki. Það er samt erfitt fyrir mig að vera með of miklar yfirlýsingar. Ég ætla fyrst og fremst að gera bara mitt besta í þessu hlaupi.“