Hilmar Snær Örvarsson hafnaði í sjötta sæti í stórsvigi á Evrópumótaröð IPC í Malbun í Liechtenstein í dag.
Þetta var annar keppnisdagurinn í röð í stórsvigi en í gær keppti Hilmar á landsmóti Liechtenstein. Hilmar var fimmti eftir fyrri ferðina í morgun en lauk keppni í sjötta sæti eftir að hafa verið með fjórum sekúndum lakari tíma í seinni ferðinni.
Á morgun og á föstudag fer fram svigkeppnin á mótinu. Á morgun fer fram svigkeppni á landsmóti Liechtenstein og á föstudag er svigkeppnin á Evrópumótaröð IPC (International Paralympic Committee).
Sigurvegari dagsins líkt og í gær var Frakkinn Arthur Bauchet en hann virðist algerlega óstöðvandi í brekkunum þessi misserin og landar gulli hvert mótið á fætur öðru. Það verður fróðlegt að fylgjast með keppni morgundagsins en svig er sterkari greinin af þessum tveimur hjá Hilmari.