Sebastian Alexandersson mun láta af störfum sem þjálfari karlaliðs Fram eftir tímabilið.
Það var Vísir.is sem greindi fyrst frá þessu en Sebastian staðfesti í samtali við mbl.is að hann myndi láta af störfum eftir yfirstandandi tímabil.
Sebastian tók við þjálfun Fram síðasta sumar og skrifaði undir þriggja ára samning við félagið sem var með uppsagnarákvæði eftir leiktíðina.
Framarar eru í áttunda sæti úrvalsdeildarinnar, Olísdeildarinnar með 14 stig og í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni þegar tímabilið er rúmlega hálfnað.
Vísir.is greinir frá því að Einar Jónsson muni taka við liðinu næsta sumar en hann er í dag þjálfari Bergsöy í Noregi og gerði Framara að Íslandsmeisturum árið 2013.