Brynjar Karl Sigurðsson, þjálfari körfuboltaliðsins Aþenu, segist skilja illa hvers vegna tillaga hans um að leyfa kynjablönduð lið á Íslandsmóti í körfubolta var felld á ársþingi KKÍ í dag, þar sem engin haldbær rök hafi verið lögð fram gegn henni.
„Það var enginn sem talaði neitt almennilega á móti þessu. Svo ég átta mig ekki á því hver mótrökin eru,“ segir Brynjar í samtali við mbl.is.
„Það eru kannski einhverjir sem halda að stelpur geti þetta ekki. En það er alls ekki satt, stelpur spila nú þegar á Íslandsmótunum, bara ólöglega. Mínar stelpur geta þetta allavega léttilega, ef þær vilja,“ segir hann, og vísar til fyrri drengjamóts yngri flokka þar sem heilt stúlknalið keppti undir leiðsögn hans.
„Mótið var ekki á vegum KKÍ, en menn voru svolítið hvumsa.“
Hann segir þá reynslu hafa verið afar dýrmæta fyrir stúlkurnar.
„Ég held að svoleiðis reynsla sé bara eitthvað það besta sem við getum fært stelpunum, að því leyti að þær „download-i“ þessum kúltúr sem mér og fleirum finnst vanta stelpumegin. Og svo áttaði ég mig á því seinna meir hvað þetta er líka gott fyrir okkur strákana, að keppa við stelpur á jafnréttisgrundvelli.“
Hann segist hafa heyrt furðulegustu skýringar út frá sér fyrir því að kynjablöndunin myndi ekki ganga, til dæmis áhyggjur af fyrirkomulagi búningsklefa á mótum.
„Svo þú sérð að fólk býr til alls konar hindranir. Þetta er nefnilega rosalega djúpt mál, það virðist ná niður í einhverja kviku. Og öll þessi kynjamál, þetta er svo flókið og það eru svo margir sem skipta sér af þessu sem hafa jafnvel ekki reynslu af einu né neinu í tengslum við þetta,“ segir Brynjar.
„Ég er sjálfur búinn að vera körfuboltaþjálfari í 32 ár. Hvað græði ég á því að henda þeim út í eitthvað sem þær ráða ekki við?“ spyr Brynjar.
„Í mínum huga er þetta „no-brainer““.