Hannes S. Jónsson formaður KKÍ segir að þrátt fyrir að breytingartillaga um kynjablöndun yngri liða á Íslandsmótinu í körfubolta, sem gerð var á ársþingi KKÍ, hafi verið felld séu margir félagsmenn hlynntir hugmyndinni í grunninn.
„Mér fannst margir tala fyrir því að vilja leyfa kynjablönduð lið, upp að vissu marki. Ég finn að fólk vill mæta þessari kröfu, en það er ýmislegt annað sem þarf að taka inn í þetta eins og staðan er í dag,“ segir Hannes í samtali við mbl.is.
Brynjar Karl Sigurðsson, þjálfari stúlknaliðsins Aþenu, lagði fram umrædda tillögu á ársþinginu í morgun, en hún laut að því að stúlkna- og drengjalið í körfubolta fái að spila í sama flokki á Íslandsmóti fram til fjórtán ára aldurs. Málið fékk nokkra athygli þegar heimildarmyndin Hækkum ránna var gefin út, en þar fer Brynjar með aðalhlutverk ásamt liði sínu.
Aðspurður segist Hannes ekki vita nákvæmlega hvers vegna tillögunni var mætt með svo mikilli andstöðu.
„Í rauninni voru umræðurnar mjög góðar, þær voru faglegar og flottar. En ef ég á að rýna í hugsanir fólks þá held ég að þetta snúist um hvort það eigi að vera hægt að koma með heilu stelpuliðin inn á strákamót, eða öfugt.“
Þannig hefur væg kynjablöndun verið leyfð innan liða í körfuboltanum lengi, en aldrei á þann hátt sem breytingartillagan lýsir. Litlum félögum, sem reynist erfitt að manna heilu stúlkna- eða drengjaliðin, hefur t.a.m. verið leyft að blanda liðum sínum hvað kyn varðar, en reglur um þessa blöndun eru óskýrar.
„Þetta er eitthvað sem við þurfum að skerpa á í okkar regluverki, og við munum fara yfir það á næstunni.“
Hannes leggur líka áherslu á að tillagan hafi snúið sérstaklega að Íslandsmótinu í körfubolta.
„Það er ekkert sem bannar það að félag sem inniheldur bara stelpur taki einhverja æfingaleiki við strákalið eða öfugt, og félög hafa alveg gert það. En hér er eingöngu verið að tala um Íslandsmótið í körfubolta.“
Þá segist Hannes sjá fyrir sér að kynjafyrirkomulag í körfubolta muni breytast í náinni framtíð.
„Ef ég tala persónulega þá langar mig að skoða þetta enn frekar og ég tel að við – ekki bara körfuboltinn heldur íþróttahreyfingin yfir höfuð – þurfum að setjast niður og skoða þessa hluti,“ segir hann.
„Í dag tölum við ekki bara um stelpur og stráka, og þess vegna þurfum við að taka alla kynjaumræðu með inn í þetta. Þessir hlutir hafa breyst mjög hratt á síðustu árum til hins betra og við sem íþróttahreyfing þurfum að vera tilbúin að koma inn og ræða þetta heilt yfir.“