Tillögu um að stúlkna- og drengjalið körfubolta fái að spila í sama flokki á Íslandsmóti fram til fjórtán ára aldurs var hafnað á ársþingi KKÍ í dag. Þjálfarinn Brynjar Karl Sigurðsson og stelpurnar sem hann þjálfar vildu fá sömu tillögu í gegn á ársþingi KKÍ fyrir tveimur árum síðan. Málinu var þá vísað frá.
Karfan.is greinir frá höfnun tillögunnar.
Ungmennafélag Kjalnesinga lagði fram tillöguna sem um ræðir en Aþena, félagið sem Brynjar Karl kom á fót, lekur undir hatti Ungmennafélags Kjalnesinga. Brynjar Karl talaði fyrir tillögunni á þinginu, sem eini fulltrúi UMFK á þinginu.145 þingfulltrúar sátu þingið.
Margir báðu um orðið á ársfundinum, samkvæmt frétt Körfunnar, og gerðu nokkrir fundarmenn athugasemd við það að tillagan væri óbreytt frá síðasta þingi. Þá voru einhverjir sammála tillögunni og bentu á þá staðreynd að það hafi tíðkast víða að leyfa stúlku- og drengjaliðum að keppa, sérstaklega þegar um væri að ræða fámennari lið.
Breytingatillaga á tillöguna var lögð fram en henni var hafnað. Hún var svohljóðandi:
„Heimilt er að keppa með kynjablandað eða skipað leikmönnum af öðru kyni frá minibolta 10 ára upp í 9. flokk. Leikmenn þessir geta ekki keppt bæði í sama aldursflokki drengja og stúlkna.”
Upprunalega tillagan frá UMFK var svohljóðandi:
„Mótanefnd KKÍ getur leyft keppni liðs í Íslandsmóti sem er annaðhvort kynjablandað eða skipað leikmönnum af gagnstæðu kyni frá minnibolta 10 ára upp í 9. flokk. Slíkt leyfi verður aðeins veitt ef félag sem óskar eftir að senda slíkt lið til keppni hefur sent inn rökstutt erindi til mótanefndar þar sem félagið hefur rökstutt með fullnægjandi hætti að mati mótanefndar að ástæða sé til að veita slíkt leyfi að teknu tilliti til meðal annars getu og/eða framþróunar liðs og/eða leikmanna sem sótt er um fyrir. Ef sótt er um slíkt leyfi fyrir lið geta leikmenn þess almennt ekki keppt bæði í flokki karla og kvenna en þó er það mögulegt ef um er að ræða tilfærslu á einstökum leikmönnum á milli liða. Blönduð lið eða lið af öðru kyni geta keppt á öllum mótum í tilteknum flokki nema í úrslitamótum þar sem endanlega er keppt um Íslandsmeistaratitil. Hafi slíkt lið áunnið sér sæti á slíku móti skal færa upp það lið sem næst kemur að stigum fyrir úrslitamót. Leyfi mótanefndar samkvæmt framangreindu tekur ekki til keppni í Bikarkeppnum KKÍ.”
Þá lagði Breiðablik einnig fram breytingartillögu sem laut að því að miðað yrði við 7. flokk en ekki 9. flokk. Sú tillaga var felld.