„Ég á Hlyni allt að þakka“

Baldvin Þór Magnússon með verðlaunagripinn sem fylgir því að komast …
Baldvin Þór Magnússon með verðlaunagripinn sem fylgir því að komast í hóp átta bestu í Bandaríkjunum, ásamt þjálfaranum Mark Rinker. Ljósmynd/Eastern Michigan-háskólinn

„Ég á eiginlega eftir að átta mig á því hver mín næstu skref verða. Það var mjög stórt fyrir mig að slá Íslandsmetið í fyrsta sinn í febrúar og bæta mig um heilar tíu sekúndur, því ég var þar með kominn upp á nýtt þrep í íþróttinni,“ sagði Baldvin Þór Magnússon langhlaupari við Morgunblaðið í gær.

Á laugardaginn bætti Baldvin eigið Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi innanhúss á lokamóti bandarísku háskólanna í Arkansas þegar hann keppti fyrir Eastern Michigan-háskólann og hljóp á 7:53,72 mínútum. Metið sló hann fyrst á móti í Michigan 6. febrúar þegar hann hljóp á 7:53,92 mínútum og bætti þá bæði eigin árangur og Íslandsmet Hlyns Andréssonar rækilega. Met Hlyns var 7:59,11 mínútur frá árinu 2019.

Baldvin launaði þar með Hlyni fyrir góða aðstoð við að koma ferli sínum sem hlaupari á þann stað sem hann er á núna.

„Ég á Hlyni í raun allt að þakka. Hann var í háskólanum hérna í Michigan á undan mér, útskrifaðist vorið áður en ég kom, og það var hann sem benti þjálfara skólans á mig og kom því til leiðar að ég kæmist hingað,“ sagði Baldvin.

Held að hann sé samt ánægður

Hann þakkaði sem sagt fyrir sig með því að hirða Íslandsmetið af Hlyni 6. febrúar! „Já, reyndar, en við Hlynur erum í góðu sambandi og ég held að hann sé samt bara ánægður með mig. Enda er aðalmálið að við séum báðir að styrkja íslenskar frjálsíþróttir með okkar árangri,“ sagði Baldvin sem stundar nám í líkamsræktarfræði (e. exercise science) við Eastern Michigan-háskólann.

Með árangrinum glæsilega 6. febrúar tryggði Baldvin sér sæti á lokamóti háskólanna, NCAA, sem er hápunktur keppnistímabilsins á þessu stigi í Bandaríkjunum. Baldvin kvaðst hafa sett Íslandsmetin tvö við ólíkar aðstæður og með mismunandi hugarfari.

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert