Leikstjórnandinn Drew Brees hefur lagt skóna á hilluna eftir 20 ár í NFL-deildinni í ruðningi. Enginn hefur kastað fyrir eins mörgum stikum (e. yards) í sögu NFL-deildarinnar og þá hefur enginn átt jafnmargar heppnaðar sendingar í deildinni.
Hinn 42 ára gamli Brees greindi frá ákvörðun sinni á Instagram. Hann hefur einu sinni fagnað sigri í Ofurskálarleiknum, tvisvar verið kosinn besti sóknarmaður ársins og 13 sinnum verið valinn í úrvalslið deildarinnar.
Brees hefur alls kastað fyrir 80.358 stikum í NFL-deildinni og átt 7.142 heppnaðar sendingar, fleiri en nokkur annar. Aðeins Tom Brady hefur kastað fyrir fleiri snertimörkum, en Brees hefur kastað fyrir 571 slíku og Brady 581.