Leikstjórnandinn Tom Brady tilkynnti það fyrir helgi að hann væri búinn að framlengja samning sinn hjá Tampa Bay Buccaneers, sigurvegurum NFL-deildarinnar í bandaríska fótboltanum í ár. Rob Gronkowski, oftast kallaður Gronk, er sömuleiðis nálægt því að skrifa undir eins árs framlengingu hjá liðinu.
Brady, sem hefur unnið sjö Ofurskálar, tilkynnti á föstudaginn að hann væri búinn að samþykkja framlengingu á samning sínum, þó ekki hafi komið fram nákvæmlega hve lengi hann áætlar að vera áfram hjá Tampa. Hann mun þó að minnsta kosti spila með liðinu út næsta tímabil.
Samkvæmt NFL Network hefur Gronk, sem hefur unnið fjórar Ofurskálar, samþykkt eins árs framlengingu sem færir honum 10 milljón Bandaríkjadala í laun, og á aðeins eftir að skrifa undir samninginn.
Gronk hefur unnið allar fjórar Ofurskálar sínar sem samherji Brady, þrjár með New England Patriots og eina með Tampa í ár. Það var enda Brady sem fékk Gronk til þess að byrja aftur að spila.
Hann hafði hætt iðkun bandarísks fótbolta eftir að þeir félagar unnu Ofurskálina 2019 en byrjaði aftur fyrir síðasta tímabil, sem endaði með glæstum 31:9 sigri gegn Kansas City Chiefs. Gronk skoraði þar tvö snertimörk, vitanlega eftir sendingar frá Brady.