Nýkrýndir deildarmeistarar Skautafélags Akureyrar, SA, héldu uppteknum hætti í Hertz-deild karla í íshokkíi í kvöld og unnu 12:2-sigur á SR í Skautahöllinni á Akureyri.
Liðin mættust í gærkvöldi og vann SA þá 8:2-sigur til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn. Norðanmenn gerðu svo gott betur í dag og unnu tíu marka sigur, 12:2.
Alex Sveinsson, Heiðar Kristveigarson og Unnar Rúnarsson komu heimamönnum í þriggja marka forystu í fyrsta leikhluta áður en Kári Arnarsson minnkaði muninn fyrir gestina. SA bætti við svo þremur mörkum í öðrum leikhluta með mörkum frá Halldóri Skúlasyni, Axel Orongan og Einari Grant.
Í þriðja leikhluta komu svo sjö mörk. Axel kom heimamönnum í 7:1 áður en Andri Skúlason bætti við. Þá skoraði Jón Óskarsson annað mark Reykvíkinga áður en Gunnar Arason, Benedikt Olgeirsson, Róbert Hafberg og Egill Birgisson bættu við mörkum fyrir lið SA. Heiðar skoraði svo sitt annað mark í leiknum sekúndum fyrir leikslok til að innsigla stórsigurinn.
SA hefur unnið níu af tíu leikjum sínum í deildinni í vetur og er með 26 stig. Fjölnir er í öðru sæti með 13 stig og SR rekur lestina með tvö stig. Ljóst er að SA og Fjölnir mætast í úrslitaeinvíginu um Íslandsmeistaratitilinn.