Valgarð og Nanna Íslandsmeistarar

Valgarð Reinhardsson og Nanna Guðmundsdóttir.
Valgarð Reinhardsson og Nanna Guðmundsdóttir. Ljósmynd/Fimleikasamband Íslands

Valgarð Reinhardsson úr Gerplu og Nanna Guðmundsdóttir úr Gerplu urðu Íslandsmeistarar í fjölþraut í áhaldafimleikum í húsakynnum Ármanns í Laugardalnum í dag. Þetta var fimmti Íslandsmeistaratitill Valgarðs en sá fyrsti hjá Nönnu í fjölþraut.

Valgarð varð Íslandsmeistari fyrst árið 2015 og síðast 2019 en ekkert mót var haldið á síðasta ári vegna kórónuveirunnar. Hann hefur því staðið uppi sem sigurvegari á fimm af síðustu sex mótum eða öll árin nema 2016. Hann fékk 79.000 stig í dag. Í öðru sæti var Íslandsmeistari unglinga frá því 2019, Jónas Ingi Þórisson, en hann var að keppa í fyrsta skipti í fullorðinsflokki, fékk 75.950 stig. Eyþór Örn Baldursson var þriðji með 71.700 stig.

Nanna sigraði í kvennaflokki með 45.700 stig, Hildur Maja Guðmundsdóttir var önnur með 45.200 stig og Margrét Lea Kristinsdóttir var þriðja með 43.800 stig.

Dagur Kári úr Gerplu sigraði í unglingaflokki karla með 73.400 stig og Freyja Hannesdóttir sigraði í unglingaflokki kvenna með 44.240 stig.

Á morgun fara fram úrslit á einstökum áhöldum, þar sem fimm hæstu keppendur á hverju áhaldi berjast um Íslandsmeistaratitilinn. Keppni hefst klukkan 15 í fimleikahúsi Ármanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert