Tenniskonan Serena Williams hefur dregið sig úr keppni á opna meistaramótinu í Miami í Bandaríkjunum. Ástæðuna segir Williams aðgerð á munn sem hún gekkst undir nýverið.
Williams er þar með enn ein stórstjarnan sem dregur sig úr keppni á mótinu, en áður höfðu Novak Djokovic, Rafael Nadal og Roger Federer tilkynnt að þeir myndu ekki taka þátt í því.
Hún hefur unnið opna meistaramótið í Miami alls átta sinnum, síðast árið 2015, og hefur enginn unnið það oftar. Williams býr auk þess í Palm Beach Gardens í Flórída, um 130 kílómetrum frá Miami.
„Miami er sérstakt mót fyrir mig því það er heimili mitt. Ég er leið yfir því að geta ekki fengið að hitta hina mögnuðu áhorfendur þetta árið, en ég hlakka til þess að koma aftur til baka bráðlega,“ sagði Williams í yfirlýsingu.