„Ég hugsaði bara að núna væri ferillinn búinn og ég gæti byrjað að dúlla mér í ræktinni og eitthvað,“ sagði Ágústa Edda Björnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og núverandi Íslandsmeistari í hjólreiðum, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.
Ágústa lagði handboltaskóna á hilluna eftir afar farsælan feril árið 2015 en ári síðar ákvað hún að gerast afreksíþróttakona í hjólreiðum.
Hún er jafnframt fyrsta konan til þess að taka þátt í heimsmeistaramóti í hjólreiðum og hefur nú keppt á tveimur heimsmeistaramótum, í Bretlandi 2019 og á Ítalíu 2020.
„Ég fer eiginlega óvart út í hjólreiðarnar og það byrjar þannig að fyrrverandi maðurinn minn ákveður að taka þátt í WOW-Cyclothon-hjólreiðakeppninni,“ sagði Ágústa.
„Hann reynir að draga sig með sér í þetta og ég hugsaði strax að þetta væri ekki fyrir mig enda fannst mér alltaf mjög leiðinlegt í spinning,“ sagði Ágústa meðal annars.
Viðtalið við Ágústu Eddu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.