„Ég held að þetta komi öllum illa, hvort sem það er keppnis- eða æfingabann,“ sagði Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, í samtali við mbl.is í dag.
Öll keppni í íþróttum hér á landi mun leggjast af næstu þrjár vikrunar en þetta var tilkynnt á blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar og almannavarna í Hörpu í dag.
„Við erum ekkert voðalega ánægð með þessa ákvörðun en hún er tekin af yfirvöldum með hliðsjón af þessum blessaða kórónuveirufaraldri sem nú ert í miklum vexti. Ég get ekki ímyndað mér að það sé einhver ánægður með þessar aðgerðir í samfélaginu.
Það sem hafði komið fram í fjölmiðlum, meðal annars frá sóttvarnalækni, gaf til kynna að allar reglur yrðu hertar en maður átti kannski ekki alveg von á því að takmarkanirnar yrðu svona strangar. Við erum ennþá að bíða eftir reglugerðinni frá stjórnvöldum og eftir það munum við taka upp samtalið við þau,“ sagði Líney.
ÍSÍ vonast til þess að hægt verði að stunda íþróttir með einhverjum takmörkunum.
„Við erum búin að koma á framfæri óskum um eitt og annað og senda inn ákveðnar fyrirspurnir til heilbrigðisyfirvalda. Svo verðum við bara að sjá hversu miklar takmarkanirnar verða. Við óskum eftir því að hægt verði að gera allt sem mögulegt er að gera fyrir íþróttafólk, svo lengi sem heilbrigðisyfirvöld telji það vera ásættanlega áhættu.
Eins og ég hef áður sagt þá eru það heilbrigðisyfirvöld sem taka lokaákvörðun um hvað er hægt að gera og hvað ekki en við viljum að sjálfsögðu ganga eins langt og hægt er. Auðvitað myndum við vilja hafa íþróttastarf í óbreyttri mynd en það er kannski ekki í boði eins og staðan er í samfélaginu í dag.“
Ekki er hægt að rekja mörg kórónuveirusmit til íþrótta en þó einhver.
„Við höfum ekki tölur yfir það hversu mörg smit hafa greinst í kringum afreksíþróttafólk, bæði þegar kemur að æfingum og keppni, en það eru þó einhver smit sem hafa greinst og sem hægt er að rekja til íþrótta.
Það voru til dæmis smit í kringum úrslitaleik í bikarkeppni karla 2020 í handboltanum, bæði hjá leikmönnum og stuðningsmönnum. Eins hafa greinst smit í kringum hnefaleika sem dæmi en auðvitað munum við reyna ýta því að að íþróttalíf geti haldið áfram með sem minnstum takmörkunum.
Við horfum sérstaklega til þess sem var í gangi í desember og fyrri hluta janúar sem dæmi þar sem íþróttafólk í efstu- og næstaefstu deild fékk að bæði æfa og keppa,“ bætti Líney við í samtali við mbl.is.