Íþróttahreyfingin spilar til sigurs með yfirvöldum

Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og íþróttamálaráðherra.
Lilja Alfreðsdóttir, Mennta- og íþróttamálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Heilbrigðisráðherra getur veitt undanþágu frá banni við íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði en þetta kom fram í skriflegu svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og íþróttamálaráðherra, við fyrirspurn mbl.is í dag.

Öll keppni í íþróttum hér á landi mun leggjast af næstu þrjár vikurnar vegna fjórðu bylgju kórónuveirufaraldursins en þetta var tilkynnt á fjölmiðlafundi ríkisstjórnarinnar í Hörpu í dag.

Nýjar og hertar sóttvarnareglur taka gildi á miðnætti en þetta eru hörðustu aðgerðir ríkistjórnarinnar í baráttu sinni við veiruna frá því að faraldurinn skaut fyrst upp kollinum hér á landi veturinn 2020.

„Hægt er að sækja um undanþágu á reglugerðinni til heilbrigðisráðuneytisins. Í reglugerðinni kemur fram að ráðherra geti veitt undanþágu frá banni við íþróttastarfi fyrir einstaka viðburði,“ sagði í skriflegu svari íþróttamálaráðherra.

Í svari hennar kom einnig fram að það hefði ekki verið rætt á fundi ríkisstjórnarinnar að leyfa áfram íþróttir án áhorfenda þar sem það hafi ekki verið í tillögum sóttvarnalæknis.

Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, hafði gert sér vonir um …
Hannes S. Jónsson, formaður KKÍ, hafði gert sér vonir um að hægt væri að snúa ákvörðun stjórnvalda en nú er nokkuð ljóst að af því verður ekki. mbl.is/Hari

Veiran óútreiknanleg

En af hverju svona harðar aðgerðir gagnvart íþróttum þegar nánast engin smit hafa komið upp tengd æfingum og keppnum?

„Markmiðið er að ná utan um þessi smit áður en staðan í samfélaginu versnar. Með því að grípa strax til aðgera í stuttan tíma getum við lágmarkað langtímaskaða af heimsfaraldri.

Við vitum það að smit hafa komið upp vítt og dreif í samfélaginu, nú erum við komin með breska afbrigðið og sú veira er óútreiknanleg. Við þurfum því öll að vera á varðbergi og öll að standa saman,“ segir í skriflegu svari Lilju.

Hefurðu ráðherra fundið fyrir óánægju innan hreyfingarinnar eftir að ákvörðunin var tekin?

„Ég átti góðan fund með lykilaðilum í íþrótta- og æskulýðshreyfingunni í dag. Ég er auðvitað sammála hreyfingunni að þetta sé bakslag en allir eru sammála um nauðsyn aðgerðanna, og allir eru tilbúnir til að ganga í takt til að ná árangri í þessari baráttu.

Eins og kom fram á þeim fundi, íþróttahreyfingin spilar með yfirvöldum til að vinna leikinn!“ segir ennfremur í skriflegu svari Lilju við fyrirspurnum mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert