Oscar de la Hoya, margfaldur heimsmeistari í ýmsum þyngdarflokkum í hnefaleikum, segist ætla að snúa aftur í hringinn í sumar, 13 árum eftir að hann hætti.
„Hinn 3. júlí sný ég aftur í hringinn til þess að berjast,“ sagði de la Hoya þegar hann var að kynna bardaga youtubestjörnunnar Jakes Pauls við Ben Askren, sem barðist áður í blönduðum bardagalistum í UFC, sem fer fram í Atlanta þann 17. apríl.
Ekki er vitað að svo stöddu hvern hann mun berjast við í júlí enda sagði hann ekkert meira um bardagann sjálfan eftir tilkynninguna um endurkomuna. De la Hoya hefur þó sagt að bardagi við Floyd Mayweather yrði „risastór“.
Fyrr í vikunni ýjaði hann að endurkomunni þegar hann sagðist hafa verið að æfa á fullu undanfarið og að endurkoma hins 54 ára gamla Mikes Tysons í hringinn gegn hinum 51 árs gamla Roy Jones jr. hefði veitt sér innblástur.
De la Hoya, sem er orðinn 48 ára gamall, barðist síðast árið 2008, þegar hann tapaði fyrir Manny Pacquaio. Á ferlinum vann hann alls 11 heimsmeistaratitla í sex þyngdarflokkum og er jafnan talinn einn besti hnefaleikamaður sögunnar.