ÍR-ingurinn Elísabet Rut Rúnarsdóttir setti nýtt Íslandsmet í sleggjukasti á vetrarkastmóti í Laugardalnum í dag.
Elísabet kastaði 64,39 metra og bætti þar Íslandsmet Vigdísar Jónsdóttur úr FH frá því á síðasta ári. Er þetta í annað sinn sem hún bætir Íslandsmet Vigdísar en Elísabet var aðeins 16 ára gömul þegar hún bætti þágildandi Íslandsmet Vigdísar á kastmóti UMSB í Borgarnesi í maí á síðasta ári, en hún kastaði þá 62,16 metra.
Með kastinu er Elísabet búin að ná lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramót U20 og U23 og einnig fyrir heimsmeistaramót U20.