Gamla ljósmyndin: Fyrst í Heiðurshöllina

Vala Flosadóttir, Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson.
Vala Flosadóttir, Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson. mbl.is/Ómar Óskarsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Þrír íslenskir íþróttamenn hafa náð að vinna til verðlauna í einstaklingsgreinum á Ólympíuleikum: Vilhjálmur Einarsson, Bjarni Friðriksson og Vala Flosadóttir.

Þegar þau Bjarni og Vala voru útnefnd í Heiðurshöll ÍSÍ árið 2012 gafst tækifæri til að mynda þau saman þar sem Vilhjálmur var viðstaddur. Sjálfur var Vilhjálmur útnefndur í Heiðurshöllina fyrstur manna í janúar árið 2012. Bjarni og Vala fengu næst „inngöngu“ í lok árs 2012. Myndina tók Ómar Óskarsson sem myndað hefur fyrir Morgunblaðið og mbl.is í áraraðir. 

Vilhjálmur vann til silfurverðlauna í þrístökki í Melbourne árið 1956, Bjarni vann til bronsverðlauna í júdó í Los Angeles árið 1984 og Vala einnig til bronsverðlauna í stangarstökki í Sydney árið 2000. Í hópinn bættust svo handboltamennirnir eftir að hafa unnið silfurverðlaun í Peking árið 2008. 

Vilhjálmur keppti síðar á Ólympíuleikunum í Róm árið 1960 og hafnaði þar í 5. sæti. Sama ár setti hann Íslandsmet í þrístökki þegar hann stökk 16,70. Íslandsmetið stendur enn. Þess má geta að Vilhjálmur vann einnig til bronsverðlauna á EM árið 1958 en til að gera afrekum Vilhjálms tæmandi skil þyrfti lengri dagskrárlið en þennan. 

Afrek Vilhjálms á leikunum 1956 hafði margvísleg áhrif á íþróttalífið hér á landi. Sem dæmi má nefna að það varð íþróttafréttamönnum hvatning til að koma á fót kjörinu um Íþróttamann ársins. Ævintýralegu afreki eins og því sem Vilhjálmur vann í Melbourne þyrfti að gera hátt undir höfði. Um leið voru Samtök íþróttafréttamanna stofnuð en þau komu kjörinu á og hafa staðið fyrir því allar götur síðan. 

Alls fékk Vilhjálmur sæmdarheitið Íþróttamaður ársins fimm sinnum: 1956, 1957, 1958, 1960 og 1961. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert