„Þetta er afar gott skref sem ég fagna innilega,“ segir Lilja Alfreðsdóttir, mennta-, menningar- og þróttamálaráðherra, í samtali við mbl.is í dag.
Í morgun tilkynnti ríkisstjórn Íslands að æfinga- og keppnisbannið, sem ríkt hefur hér á landi undanfarnar vikur, verði afnumið á fimmtudaginn kemur.
Þá eru íþróttir heimilar öllum, bæði börnum og fullorðnum, en nýjasta reglugerð ríkisstjórnarinnar er í samræmi við tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis.
„Það er auðvitað þannig að íþróttir barna, ungmenna og fullorðinna eru fyrst og fremst gríðarlega stórt lýðheilsumál.
Mér fannst þess vegna skipta mjög miklu máli að geta komið íþróttunum af stað um leið og við værum komin í þannig aðstæður að það sé möguleiki,“ segir Lilja.
„Ég hef lagt ríka áherslu á þetta í þessum faraldri, það er að segja að ná utan um menntakerfið og íþróttirnar, og mér fannst mjög mikilvægt að það væri samræmi þarna á milli.“
Þegar tilslakanirnar voru kynntar í morgun voru áhorfendur ekki leyfðir á íþróttaviðburðum en því var breytt á heimasíðu heilbrigðisráðuneytisins síðar í dag.
„Við vorum sammála um að það þyrfti að gera ákveðnar breytingar þarna og ríkisstjórnin hefur lagt áherslu að það sé samræmi í þeim aðgerðum sem boðaðar eru.
Hvort þessar breytingar á áhorfendabanni hafi verið gegn tillögu sóttvarnalæknis er hins vegar eitthvað sem ég get ekki svarað til um.“
Mikil ánægja ríkir innan íþróttahreyfingarinnar við tíðindum dagsins.
„Ég hef átt frábært samstarf við íþróttahreyfinguna um þessar afléttingar. Við þurftum að koma íþrótta- og afreksfólkinu okkar af stað.
Það á að búa við sömu aðstæður og íþróttafólk erlendis en á sama tíma erum við alltaf að læra eitthvað nýtt í þessum faraldri.
Við erum alltaf með hugann við íþróttirnar, að vera með sem mesta virkni þar, og eins og ég sagði áðan hef ég lagt ríka áherslu á það gegnum þennan faraldur.“