Íslenskt afreksíþróttafólk kallar á hjálp

Anton Sveinn McKee hefur einn Íslendinga tryggt sér keppnisrétt á …
Anton Sveinn McKee hefur einn Íslendinga tryggt sér keppnisrétt á Ólympíuleikunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sundmaðurinn Anton Sveinn McKee, þríþrautarkonan Guðlaug Edda Hannesdóttir og langhlauparinn Hlynur Andrésson kalla eftir stuðningi ríkisstjórnarinnar við afreksstefnu í íþróttum.

Þau segja í bréfi sem birtist hér fyrir neðan að einu og hálfu ári eftir að mennta- og menningarmálaráðherra hafi í kjölfar áskorunar sagst myndu beita sér fyrir réttinda- og launamálum afreksíþróttafólks hafi enn ekkert verið aðhafst og ekkert stjórnarfrumvarp verið lagt fram.

Bréfið er þannig í heild sinni:

Guðlaug Edda Hannesdóttir freistar þess að komast í þríþrautarkeppni Ólympíuleikanna.
Guðlaug Edda Hannesdóttir freistar þess að komast í þríþrautarkeppni Ólympíuleikanna. Ljósmynd/Þríþrautasamband Íslands

Afreksíþróttafólk Íslands setur spurninga[r]merki við stuðning ríkisstjórnarinnar á afreksstefnu Íslands í íþróttum. Enn hefur ekkert verið aðhafst í kjara- og réttindamálum afreksíþróttafólks á Íslandi þegar tæplega eitt og hálft ár er liðið frá bréfi afreksíþróttafólks til mennta- og menningarmálaráðherra Lilju Alfreðsdóttur þrátt fyrir stöðugar ítrekanir til þingmanna, ráðherra og mennta- og menningarmálaráðuneytisins. 

Í kjölfar ofangreinds bréfs og áskorunar sem afhent var Lilju í desember 2019 sagði ráðherra að hún myndi beita sér fyrir réttinda- og launamálum afreksíþróttafólks og sýna stuðning til afreksíþrótta á Íslandi. Nú hafa Hanna Katrín (Viðreisn) og Helga Vala (Samfylking) lagt fram þingsályktunartillögur um réttindi afreksíþróttafólks og afreksstefnu Íslands sem hafa setið fastar í allsherjar- og menntamálanefnd. Á sama tíma hefur ekkert stjórnarfrumvarp verið lagt fram af ríkisstjórninni sjálfri.

Þar að auki sat afreksíþróttafólk eftir þegar hinar ýmsu stéttir samfélagsins fengu stuðning vegna COVID-19-faraldursins, til dæmis aukning við listamannalaun. COVID-19 hafði mikil áhrif á tekjumöguleika afreksíþróttafólks þar sem flestum íþróttaviðburðum varð aflýst eða frestað árið 2020 og 2021, þ.á m. Ólympíuleikunum, heimsmeistaramótum, heimsbikarskeppnum, [E]vrópumeistaramótum og svo framv.

Við höfum beðið í langan tíma með von í hjarta um að eitthvað yrði gert í réttindamálum okkar og mótuð heildstæð stefna í afreksíþróttum á Íslandi, eins og við sjáum að er til staðar hjá keppinautum okkar í þeim löndum sem við miðum okkur við. Við getum einfaldlega ekki beðið lengur. Fram undan eru Ólympíuleikar og í kjölfarið taka við nokkur ár af stanslausum æfingum og keppnum sem þarf að færa mikið af fórnum og vera áfram réttindalaus í íslensku samfélagi til þess að vera fulltrúi Íslands á næstu Ólympíuleikum, stærsta íþróttasviði heims. Þetta er ákvörðun sem besta íþróttafólk í einstaklingsíþróttum á Íslandi stendur frammi fyrir og er ástæðan fyrir því að fæst þeirra halda áfram til að ná toppnum í sinni íþrótt og standa á verðlaunapalli á stórmótum fyrir Íslands hönd. 

Hlynur Andrésson er í baráttu um að komast á Ólympíuleikana …
Hlynur Andrésson er í baráttu um að komast á Ólympíuleikana í sumar. Ljósmynd/FRÍ

Það er einungis einn íslenskur íþróttamaður, sundmaður[inn] Anton Sveinn McKee, sem hefur náð lágmörkum á Ólympíuleikana í Tókyó sem haldnir verða í sumar. Það lítur út fyrir að Ísland muni senda sitt minnsta lið á Ólympíuleikana í yfir 100 ár, en liðið hefur ekki verið minna síðan á Ólympíuleikunum í London árið 1908 þegar Jóhannes Jósefsson fór einn á Ólympíuleikana. Ef við berum saman síðustu þrjá leika þá náðu inn tólf einstaklingsíþróttamenn árið 2008, þrettán árið 2012 og átta árið 2016. Ef rýnt er í þessar tölur er augljóst að kröfur og lágmörk til þess að keppa á Ólympíuleikum hafa hækkað á meðan að stuðningur frá ríkinu við íslenskt afreksíþróttafólk hefur ekki fylgt eftir þeirri þróun.

Vill íslenskt samfélag heyra íslenska þjóðsönginn spilaðan þegar íslenskur afreksíþróttamaður tekur á móti gulli á Ólympíuleikunum? Það mun ekki gerast ef ekkert verður aðhafst í stöðu afreksíþróttafólks. Við þurfum hjálp núna.

Virðingarfyllst,

Fyrir hönd íslensks afreksíþróttafólks á Íslandi
Anton Sveinn McKee

Guðlaug Edda Hannesdóttir
Hlynur Andrésson

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert