Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir er skrefi nær sænska meistaratitlinum í blaki með liði sínu Hylte Halmstad eftir sigur á ríkjandi meisturum Engelholm, 3:1, á útivelli í fyrsta úrslitaleik liðanna.
Jóna og samherjar hennar töpuðu fyrstu hrinunni 20:25 en unnu síðan 27:25, 25:21 og 25:15. Jóna var að vanda í stóru hlutverki í sínu liði og var þriðja stigahæst með 18 stig.
Þrjá sigra þarf til að hreppa meistaratitilinn og Hylte Halmstad fær nú tækifæri til að tryggja sér meistaratitilinn á sínum heimavelli því tveir næstu leikir fara fram í Halmstad, annað kvöld og á sunnudaginn.
Karlalið Hylte Halmstad er á sömu slóðum og kvennaliðið eftir sigur á Falkenberg, 3:1, í fyrsta úrslitaleiknum í karlaflokki. Nái bæði liðin að hreppa meistaratitilinn verður Hylte Halmstad fyrsta félagið í 33 ár til að vinna tvöfalt, bæði í karla- og kvennaflokki, í sænska blakinu. Marcus Nilsson, unnusti Jónu Guðlaugar, leikur með karlaliði félagsins.