Langþráðar mínútur á Ítalíu

Andri Fannar Baldursson í leik íslenska U21-árs landsliðsins gegn Frökkum …
Andri Fannar Baldursson í leik íslenska U21-árs landsliðsins gegn Frökkum í lokakeppni EM í Ungverjalandi. AFP

Andri Fannar Baldursson lék sinn fyrsta leik fyrir Bologna í rúma tvo mánuði þegar hann kom inn á sem varamaður á 9. mínútu í 1:1-jafntefli liðsins gegn Torino á heimavelli í ítölsku A-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Musa Barrow kom Bologna yfir á 25. mínútu en Rolando Mandragora jafnaði metin fyrir Torino á 58. mínútu og þar við sat.

Andri Fannar kom inn á fyrir meiddan Nicolas Dominguez en hann lék síðast með Bologna hinn 20. febrúar þegar hann kom inn á gegn Sassuolo í deildinni en þá lék hann aðeins í níu mínútur.

23. desember var hann í byrjunarliði Bologna gegn Atalanta en hann hefur komið við sögu í sex leikjum í ítölsku A-deildinni á tímabilinu en aðeins einu sinni verið í byrjunarliðinu.

Bologna siglir lygnan sjó í ellefta sæti A-deildarinnar með 38 stig, 10 stigum frá fallsæti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert