Þrefaldur meistari í Svíþjóð

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir hefur átt frábært tímabil í Svíþjóð.
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir hefur átt frábært tímabil í Svíþjóð. Ljósmynd/HHVolley

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir er Svíþjóðarmeistari í blaki 2021 en lið hennar Hylte/Halmstad hafði betur gegn Engelholm í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvígi um sænska meistaratitilinn í Halmstad í kvöld.

Leiknum lauk með 3:2-sigri Hylte/Halmstad en leikurinn var afar jafn og spennandi og endaði í oddahrinu.

Engelholm komst í 1:0 en Hylte/Halmstad tókst að snúa leiknum sér í vil og komst 2:1 yfir. Engelholm vann fjórðu hrinu 25:15 en í oddahrinunni reyndist Hylte/Halmstad sterkara og vann 15:9-sigur.

Jóna Guðlaug var næststigahæst í sínu liði með 16 stig en Hanna Hellvig skoraði 23 stig fyrir Hylte/Halmstad.

Fyrir leik kvöldsins hafði Hylte/Halmstad tryggt sér sigur í bæði deild og bikar og félagið er því þrefaldur meistari í Svíþjóð en Jóna hefur átt frábært tímabil og var meðal annars valin í lið ársins í Svíþjóð á dögunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert