Íslandsmeistarinn meiddist á fyrsta áhaldi

Valgarð Reinhardsson.
Valgarð Reinhardsson.

Íslandsmeistarinn Valgarð Reinhardsson er úr leik á Evrópumótinu í áhaldafimleikum en hann meiddist á fyrsta áhaldi er undanúrslitin hófust í dag. Fjórir keppa fyrir Íslands hönd, þeir Jón Sig­urður Gunn­ars­son, Jón­as Ingi Þóris­son, Mart­in Bjarni Guðmunds­son og Val­g­arð.

Valgarð hóf keppni á stökki en meiddist á ökkla í seinna stökkinu og gat því ekki haldið keppni áfram en þetta kemur fram í frétt á heimasíðu Fimleikasambands Íslands. Martin Bjarni og Jónas Ingi voru báðir að keppa á sínu fyrsta Evrópumóti í fullorðinsflokki og kláruðu sína fjölþraut með ágætisárangri.

Martin Bjarni fékk 71.064 stig og var í 61. sæti en Jónas Ingi fékk 69.831 stig og var í 63. sæti af 152 keppendum. Jón Sigurður keppti í hringjum og hlaut 13.000 stig fyrir sínar æfingar, endaði í 49. sæti af 96 keppendum en átta efstu menn á hverju áhaldi fara áfram í úrslitin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert