Fullkominn leikur með föðurinn í kúlunni

Bandaríkjamaðurinn John Hinkle Junior minntist föður síns með nokkuð óvenjulegum hætti á dögunum en þeir feðgar voru miklir keiluáhugamenn.

John Hinkle eldri féll frá árið 2016 en hann var mikill áhugamaður um keilu og hafði komið sonum sínum inn í íþróttina á yngri árum. Hinkle Junior hefur spilað alla tíð síðan og var meðal annars í tvígang háskólameistari NCAA í keilu.

Þegar Hinkle eldri lést fyrir fimm árum ákvað hann að heiðra minningu föður síns með því að setja ösku hans í sérútbúna keilukúlu og reyna við hinn „fullkomna leik.“ New York Post segir svo frá því að það hafi loks tekist.

„Ég sagði við bróður minn: ég ætla að næla í 300 stig með þessari kúlu,“ hefur New York Post eftir John Hinkle en til þess að ná 300 stigum í einum keiluleik þarf að spila fullkominn leik, þ.e. bara fellur og þar með 300 stig.

Hinkle hefur nokkrum sinnum á ferlinum náð að spila fullkominn leik en enginn skiptir hann jafn miklu máli og þessi. Faðir hans, sem elskaði keilu, náði því afreki nefnilega aldrei sjálfur. „Pabbi náði 298 og 299 stigum en aldrei 300. Ég var með tárin í augunum fyrir síðasta skotið, ég sá varla hvert kúlan fór!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert