Eitt Íslandsmet var sett á fyrsta degi Íslandsmeistaramótsins í sundi í 50 metra laug sem fram fer í Laugardalslaug nú um helgina.
Sterkt sundfólk er á meðal keppenda og má þar nefna EM-farana Jóhönnu Elínu Guðmundsdóttur og Dadó Fenri Jasminuson úr SH. Jóhanna varð fyrst í mark í 50 metra skriðsundi á tímanum 26,36 sekúndum en Steingerður Hauksdóttir var önnur á tímanum 27,13 og Dagbjört Hlíf Ólafsdóttir þriðja á tímanum 27,84. Allar eru þær úr Sundfélagi Hafnarfjarðar.
Þá varð Dadó Fenrir fyrstur í mark í 50 metra skriðsundi karla en hann synti á tímanum 23,47 sekúndum. Símon Elías Statkevicius var annar á tímanum 23,80 en þeir eru báðir úr SH. Kristinn Þórarinsson úr Fjölni varð þriðji á tímanum 24,13.
Þá féll eitt Íslandsmet í dag en það var í 400 metra skriðsundi karla. Fjölnismaðurinn Viktor Forafonov setti það er hann kom í mark á 4:05,24 mínútum. Patrik Viggó Vilbergsson var annar á tímanum 4:05,82 og Gústav Ragnar Kristjánsson var þriðji á tímanum 4:14,72 en báðir eru þeir í Breiðabliki.