Gamla ljósmyndin: Bilaði ekki skrúfa

Jón Ragnarsson (með hjálminn) og Rúnar Jónsson.
Jón Ragnarsson (með hjálminn) og Rúnar Jónsson. Morgunblaðið/Gunnlaugur Rögnvaldsson

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Feðgarnir Jón Ragnarsson og Rúnar Jónsson voru sérlega sigursælir í rallkeppnum hérlendis um árabil. 

Meðfylgjandi mynd var tekin af þeim feðgum þegar þeir voru að leggja í'ann á síðustu sérleið Ljómarallsins síðsumars árið 1987. Keppnina unnu feðgarnir en sá sigur markaði tímamót á þeirra ferli. 

„Þetta er sætasti sigur sem ég hef unnið og fyrsta alþjóðlega keppnin þar sem við Rúnar verðum fyrstir í mark,“ sagði Jón í samtali við Morgunblaðið sunnudaginn 30. ágúst 1987.

Tuttugu og sjö bílar lögðu af stað í keppnina en eknir voru 1.300 kílómetrar og tókst tíu að skila sér í mark. Jón og Rúnar voru 23 mínútum á undan næsta bíl en feðgarnir keyrðu á Ford Escort RS.

„Það stefndu allir hátt í byrjun og ætluðu sér sigurinn en okkur tókst að halda vel á spilunum þegar aðrir lentu í ógöngum. Þetta er í fyrsta skipti sem sigurbíllinn kemst klakklaust frá keppni; það bilaði ekki skrúfa í bílnum,“ sagði Jón einnig. 

Meðfylgjandi mynd tók Gunnlaugur Rögnvaldsson sem myndaði fyrir Morgunblaðið um tíma og birtist myndin og umfjöllunin á bls. 2 í SunnudagsMogganum. 

Árið 1997 deildu þeir feðgar nafnbótinni Akstursíþróttamaður ársins á Íslandi en venjan er að einn akstursíþróttamaður verði fyrir valinu. 

Jón Ragnarsson keppti í rallý í liðlega þrjátíu ár og afrekaði að verða Íslandsmeistari með bróður sínum og tveimur sonum.

Hann varð oft Íslandsmeistari með Ómari bróður sínum sem þá var orðinn þjóðkunnur skemmtikraftur en þeir kepptu saman í tíu ár. Næstu tuttugu árin keppti hann með Rúnari og urðu þeir einnig oft Íslandsmeistarar.

Jón náði einnig að verða Íslandsmeistari með Baldri syni sínum. Eftir að Jón dró sig í hlé urðu Rúnar og Baldur Íslandsmeistarar saman. 

Fyrir þá sem hafa gaman af ættfræði í íþróttunum þá á Jón nú barnabarn í efstu deild ítölsku knattspyrnunnar. Andri Fannar Baldursson hjá Bologna er sonur Baldurs Jónssonar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert