Skautafélag Akureyrar, SA, er Íslandsmeistari kvenna í íshokkí árið 2021 eftir 5:0-sigur á Fjölni í oddaleik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í skautahöllinni á Akureyri í dag.
Grípa þurfti til oddaleiks eftir óvæntan sigur Fjölniskvenna í öðrum leik liðanna í Egilshöllinni á fimmtudaginn. SA vann fyrsta leikinn 13:1 en Fjölnir vann annan leikinn í vítakeppni.
Staðan var markalaus eftir fyrsta leikhluta en Jónína Guðbjartsdóttir kom heimakonum í forystu í öðrum leikhluta og rétt áður en honum lauk varð staðan 2:0 þökk sé marki Sögu Sigurðardóttur. Saga bætti svo við öðru marki sínu snemma í þriðja leikhluta og þær Arndís Sigurðardóttir og Kolbrún Garðarsdóttir skoruðu svo á síðustu mínútunum til að innsigla sigurinn.
Norðankonur eru heilt yfir verðskuldaðir sigurvegarar Íslandsmótsins. Liðið vann alla sjö deildarleiki sína í vetur og hafði svo betur í úrslitaeinvíginu gegn Fjölni.