Svíþjóðargullið var sjö ár í vinnslu hjá Jónu

Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, til hægri, fagnar sænska meistaratitlinum ásamt
Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir, til hægri, fagnar sænska meistaratitlinum ásamt Ljósmynd/Bildbyrån

Síðastliðinn miðvikudag varð Jóna Guðlaug Vigfúsdóttir Svíþjóðarmeistari í blaki þegar lið hennar Hylte/Halmstad vann Engelholm í öðrum úrslitaleik liðanna og vann einvígið 2:0. Þar með tryggði liðið sér sögulega þrennu, enda var Hylte/Halmstad þegar búið að tryggja sér deildarmeistara- og bikarmeistaratitlana í Svíþjóð.

Óhætt er því að segja að liðið hafi átt frábært tímabil og sömu sögu er að segja af Jónu Guðlaugu, sem var í byrjun mánaðarins valin í lið ársins í sænsku úrvalsdeildinni. Hún er að vonum ánægð með árangurinn á tímabilinu og eftir 15 ára atvinnumannsferil, þar sem hún hefur meðal annars orðið Noregsmeistari í tvígang, auk þess að verða Íslandsmeistari, segir hún Svíþjóðarmeistaratitilinn líkast til standa upp úr.

„Eins og staðan er núna er þetta náttúrlega toppurinn á tilverunni. Ef ég lít til baka þá veit ég ekki alveg, ég er búin að vera í Svíþjóð svo svakalega lengi og alltaf verið einhvern veginn: „Ég verð að ná í allavega eitt gull áður en ég hætti hérna í Svíþjóð.“ Ég ílengdist hérna, ætlaði ekki að vera svona lengi í Svíþjóð,“ sagði Jóna Guðlaug í samtali við Morgunblaðið.

Ætlunin hafi verið að söðla fyrr um og reyna fyrir sér áfram í atvinnumennsku en í öðru landi. „Það var svona pælingin frá byrjun en þetta er búið að vera nokkurn veginn sjö ár í framkvæmd þetta helvítis gull og ég grét eins og lítill krakki eftir þennan leik á miðvikudaginn, þvílíka gleðin!

Þetta er stærsti titillinn í Svíþjóð, enda sá maður það á því hvernig leikmennirnir brugðust við. Okkur óx bara ásmegin. Það er svo mikið undir. Ef við hefðum tapað þessum titli og unnið hina tvo hefði okkur liðið eins og þeir hefðu bara núllast út,“ sagði hún.

Viðtalið í heild sinni er í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert