HK meistari á reiknireglu – úrslitakeppni hefst í kvöld

HK er deildarmeistari kvenna í blaki 2020-21.
HK er deildarmeistari kvenna í blaki 2020-21. mbl.is/Árni Sæberg

Úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í blaki hefst í kvöld með fyrstu leikjunum í fyrstu umferðinni en HK varð deildarmeistari í Mizuno-deild kvenna þar sem keppni lauk síðasta föstudagskvöld.

Lokastaða deildarinnar var reiknuð út samkvæmt reiknireglu covid-reglugerðar Blaksambands Íslands, þar sem keppni var stöðvuð tvisvar í vetur og ekki reyndist hægt að ljúka ellefu leikjum á tímabilinu.

HK varð deildarmeistari enda þótt Kópavogsliðið hefði fengið 28 stig í deildinni en Afturelding 29. HK lék einum leik minna. KA var í þriðja sæti með 26 stig, Þróttur frá Neskaupstað fékk 8 stig, Álftanes 7 stig og Þróttur úr Reykjavík 4 stig. Álftanes fékk fjórða sætið þar sem liðið lék einum leik minna en Þróttur úr Neskaupstað.

Liðin sex leika öll í úrslitakeppninni og þar mætast í 1. umferð liðin í þriðja og sjötta sæti, KA og Þróttur Reykjavík, og liðin í fjórða og fimmta sæti, Álftanes og Þróttur Neskaupstað.

Þróttur R. og KA mætast í Digranesi klukkan 19 en Þróttur N. og Álftanes leika í Neskaupstað klukkan 20. 

Leiknir eru tveir leikir, heima og heiman, og verði staðan jöfn, 1:1, eftir seinni leikinn fer fram strax að honum loknum svokölluð „gullhrina“ sem ræður úrslitum í einvíginu.

HK og Afturelding eru komin beint í undanúrslit og leika þar gegn liðunum tveimur sem vinna einvígin í 1. umferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert