Serge Aurier, bakvörður enska knattspyrnufélagsins Tottenham, verður samningslaus sumarið 2022 og þar sem hann hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning virðist allt benda til þess að hann sé á förum frá félaginu í sumar.
Sportsmail greinir frá því að Inter Mílanó hafi mikinn áhuga á bakverðinum en hann er annar leikmaðurinn í ensku úrvalsdeildarinnar sem hefur verið orðaður við ítalska félagið undanfarnar vikur.
Antonio Conte, knattspyrnustjóri Inter, þekkir vel til á Englandi eftir að hafa stýrt Chelsea frá 2016 til ársins 2018 en hann gerði Chelsea að Englandsmeisturum árið 2017.
Olivier Giroud hefur einnig verið orðaður við ítalska félagið en hann verður ekki áfram í herbúðum Chelsea á næstu leiktíð.
Aurier er 28 ára gamall en hann gekk til liðs við Tottenham frá París SG árið 2017. Hann á að baki 108 leiki fyrir félagið í öllum keppnum.