SA-Víkingar og Fjölnir spiluðu þriðja leik sinn í úrslitaeinvíginu í íshokkí karla í kvöld. SA hafði unnið tvo fyrstu leikina og gat því tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri.
Heimamenn voru miklu sprækari í fyrsta leikhlutanum og sóttu þeir hart að marki Fjölnismanna. Þar stóð Atli Valdimarsson vaktina og hann varði hvað eftir annað frá Akureyringum, sem oft voru í algjörum dauðafærum. Jóhann Leifsson kom þó pökknum í netið í leikhlutanum og leiddi SA því 1:0 eftir fyrsta leikhlutann.
Annar leikhlutinn var markalaus og ekki jafn hraður og opinn og sá fyrsti. Fjölnismenn lentu í því að spila tveimur færri í tvær mínútur og gerðu þeir það einstaklega vel. Þeim tókst að loka virkilega vel á heimamenn, sem náðu aðeins tveimur almennilegum skotum á markið. Seinni hluti leikhlutans einkenndist af eilífum rangstöðudómum á SA og stöðvaði það flæðið í leiknum mikið.
Í lokaleikhlutanum reyndu Fjölnismenn hvað þeir gátu til að jafna leikinn og fengu færin til þess. Jakob Jóhannesson varði allt í marki SA og var mjög öruggur. Í lokin tóku Fjölnismenn markvörðinn sinn út af og þá náði SA loks að skora. Var þar að verki Axel Orongan. Tryggði hann svo gott sem sigur SA en Jóhann Leifsson skoraði einnig og þá var þetta endanlega búið.
SA vann því leikinn 3:0 og einvígið 3:0. Eftir leik fékk Andri Már Mikaelsson að lyfta Íslandsmeistarabikarnum í 22. skipti í sögu SA.
Mörk/stoðsendingar:
SA-Víkingar: Jóhann Leifsson 2/0, Axel Orongan 1/0.